Sjóðurinn er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu tækni í skólum landsins

 

 

Hlutverk

Sjóðurinn „Forritarar framtíðarinnar” er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Um er að ræða samstarfsverkefni aðila atvinnulífsins.

Hollvinir sjóðsins leggja sjóðnum lið með peningaframlögum og tækjabúnaði s.s. tölvum. Grunn- og framhaldskólar geta sótt um styrki í sjóðinn. 

Ísland stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að það er skortur á upplýsingatæknimenntuðu fólki í landinu. Háskólar útskrifa tæknimenntað fólk sem annar um það bil 50% eftirspurnar atvinnulífsins. Á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið.

Upplýsingatæknigeirinn vex hraðar en aðrir geirar og má segja að nánast engin atvinnugrein sé án tækni. Jafnvel bóndi mjólkar með tölvum. Auk þess er mikill skortur á tækni- og tölvukennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. 

Þótt börn og unglingar verji miklum tíma í notkun tækni er nauðsynlegt að þau fái þá þjálfun og þekkingu sem þarf til þess að þau geti nýtt sér tækninaí víðari skilningi. Til að bregðast við ofangreindu er sjóðurinn „Forritarar framtíðarinnar” stofnaður.

Stjórn

Í stjórn sjóðsins 2023-2024 eru:

  • Formaður stjórnar: Sindri Ólafsson, Marel
  • Gjaldkeri: Klara Berta Hinriksdóttir, Reiknistofa bankanna
  • Ritari: Sunneva Þorsteinsdóttir, CCP Games
  • Meðstjórnandi:  Hjalti Harðarson, Landsbankinn
  • Óháður stjórnarmaður: Guðrún Vala Ólafsdóttir, Vatnsendaskóla

Við viljum vera samkeppnishæf við aðrar þjóðir

Ísland stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að það er skortur á upplýsingatæknimenntuðu fólki í landinu. Háskólar útskrifa tæknimenntað fólk sem annar um það bil 50% eftirspurnar atvinnulífsins. Á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið.

Stofnaðilar

Stofnaðilar sjóðsins!

RB og Skema sameinuðu krafta sína og stofnuðu sjóðinn árið 2014 með það að markmiði að fá atvinnulífið til að leggja verkefninu lið. Síðan þá hefur fjöldinn allur af öflugum fyrirtækjum bæst í hópinn. Fyrirtækin leggja sjóðnum lið með peningaframlögum og tækjabúnaði s.s. tölvum.

Skipulagsskrá

SKIPULAGSSKRÁ FYRIR FORRITARA FRAMTÍÐARINNAR

Nafn

1. GR.
Nafn sjóðsins er Forritarar framtíðarinnar, kt. 451213-0670.

Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem starfar í samræmi við lög nr. 19 frá 1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Sjóðurinn stundar ekki atvinnurekstur.

Heimili

2. GR.
Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

Tilgangur
3. GR.

Sjóðurinn er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritunarmenntun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. 

Framtíðarsýn sjóðsins er aukin fræðsla og áhugi á meðal barna og unglinga á forritun og tækni. 

Stofnendur
4. GR.
Stofnendur sjóðsins eru Reiknistofa bankanna hf., kt. 470111-0540, og Skema ehf., kt. 520711-0310.

Stofnfé sjóðsins
5. GR.
Stofnfé sjóðsins er 1.100.000 kr. sem greiðist af stofnendum sjóðsins. Reiknistofa bankanna greiðir 1.000.000 kr. og Skema 100.000 kr.

Tekjur sjóðsins
6. GR.
Tekjur sjóðsins koma í formi fjárframlaga hollvina auk frjálsra framlaga, vaxtatekna og annars arðs sem hljótast kann af starfseminni. Stjórn er heimilt að ákveða aðrar leiðir til tekjuöflunar eftir þörfum og skal samþykkja þær af meirihluta stjórnar.

Tekjur sjóðsins skulu standa straum af öllum kostnaði sem af rekstri hans leiðir.

Óheimilt er að skerða höfuðstól sjóðsins miðað við vísitölu neysluverðs á innborgunardegi stofnfjár. Aðeins er heimilt að verja vöxtum af uppfærðum höfuðstól sjóðsins á hverjum tíma sem og síðari framlögum og/eða öðrum tekjum sjóðsins, þ.m.t. fjárframlagi hollvina sjóðsins, að hluta eða öllu leyti til styrkveitinga og framlaga. Heimilt er að leggja hluta af tekjunum til hliðar og veita hærri styrk(i) en ella á komandi ári.

Fjármuni sjóðsins skal varðveita með tryggum hætti í banka eða stofnun sem tryggir ávöxtun hans.

Rekstrarhagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang sjóðsins.

Óheimilt er að veita lán úr sjóðnum eða veðsetja hann.

Árgjöld
7. GR.
Hollvinir greiði fjárframlag í sjóðinn samkvæmt samningi sem gerður er milli hollvinar og félagsins.

Stjórn
8. GR.
Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum. Rétt til stjórnarsetu hafa hollvinir sjóðsins með gildan samning við félagið. Hollvinir geta valið einn aðila til stjórnarsetu utan hóps hollvina sé samstaða stjórnar um það.

Fjórir stjórnarmenn skulu kosnir af hollvinum úr hópi þeirra sem greitt hafa árlegt fjárframlag skv. samningi og einn óháður utan hollvina. Til að tryggja að reynsla af verkefninu haldist innan stjórnar skal kosið um tvö stjórnarsæti hollvina árlega til tveggja ára. Óháða fulltrúann skal einnig kjósa um árlega. Heimilt er að endurkjósa stjórnarmenn, þó aldrei meira en sex ár í senn.

Stjórnarmenn fá hvorki greidd laun né annars konar þóknun úr sjóðnum fyrir stjórnarstörf sín.

Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi og skiptir að öðru leyti með sér verkum eftir því sem þurfa þykir. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Heimilt er að nota fjarfundabúnað eða sambærilegan fjarskiptabúnað til að halda stjórnarfundi. Halda skal verkefnaskrá yfir þau verkefni sem stjórnin ræðst í.

Stjórnin stýrir öllum málefnum sjóðsins og kemur fram út á við fyrir hans hönd. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi sjóðsins sé í réttu og góðu horfi.

Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. Með „mikilvægri ákvörðun” er átt við ákvörðun stjórnar um val á verkefnum til úthlutunar styrks og breytingar á úthlutunarreglum og skal þá stjórnin leitast við að fara eftir óskum stofnenda sjóðsins eins og unnt er.

Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Annars konar stjórnun
9. GR.
Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða launaðan starfsmann í hlutastarf til að sjá um það sem viðkemur rekstri og umsýslu sjóðsins.

Aðalfundur
10. GR.
Aðalfundur hollvina skal miðast við að sé haldinn fyrir lok september ár hvert og skulu þá eftirfarandi mál tekin fyrir:

(1) Stjórn félagsins skal skýra frá hag félagsins, rekstri þess og úthlutun styrkja á liðnu starfsári

(2) Ársreikningur þar síðasta árs lagður fram til samþykktar.

(3) Kosning stjórnar

(4) Kosning endurskoðenda

(5) Kosning um breytingar á skipulagsskrá

(6) Önnur mál

Tilnefningar til kosninga í stjórn og endurskoðunar félagsins þurfa að liggja fyrir hjá formanni stjórnar eigi síðar en fyrir upphaf aðalfundar.

Stjórnin boðar til fundar með tölvupósti eða öðrum sannanlegum hætti til hollvina með að minnsta kosti 15 daga fyrirvara.

Óski hollvinir að bera upp önnur mál á aðalfundi ber að senda þau til allra hollvina með að minnsta kosti 7 daga fyrirvara.

Atkvæðisréttur á aðalfundi hollvina
11. GR.
Atkvæðisrétt á fundi hollvina eiga þeir einir sem staðið hafa skil á fjárframlagi síðasta árs og/eða fyrstu greiðslu á líðandi ári.

Á aðalfundi hollvina hefur hver mættur hollvinur eitt atkvæði.

Úthlutun styrkja
12. GR.
Sjóðurinn skal leitast við að veita styrki til samræmis við hlutverk sjóðsins, áherslur og úthlutunarreglur stjórnar hverju sinni um hvernig staðið verði að ákvörðun styrkja, fjárhæð þeirra og fleira.

Efni styrkja
13. GR.
Sjóðurinn skal leitast við að veita styrki með eftirfarandi hætti:

  • Menntun og þjálfun kennara og annars starfsfólks grunn- og framhaldsskóla í forritunar- og tæknikennslu. 
  • Kaup á smátækjum sem nýtast við forritunar og tæknikennslu.
  • Gerð opins námsefnis til notkunar í grunn- og framhaldsskólum til forritunar- og tæknikennslu.

  • Úthlutun tölvubúnaðs frá hollvinum sem nýtist við forritunar- og tæknikennslu í grunn- og framhaldsskólum.

Styrkumsóknir
14. GR.
Allar styrkveitingar sjóðsins eru háðar umsókn til stjórnar sjóðsins.

Umsóknum skal skilað á því formi sem stjórn tilgreinir á hverjum tíma. Þeir sem hljóta styrk skulu háðir þeim skilmálum og skilyrðum sem stjórnin setur á hverjum tíma.

Reikningar
15. GR.
Reikningar sjóðsins skulu áritaðir af stjórn hans og löggiltum endurskoðanda og samþykktir á aðalfundi.

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

Fyrsta reikningstímabil er frá stofnun sjóðsins og til næstu áramóta.

Reikningar sjóðsins skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðsins hefur verið ráðstafað á því ári.

Endurskoðendur
16. GR.
Stjórn sjóðsins skal velja löggiltan endurskoðanda til að endurskoða reikninga sjóðsins fyrir hvert starfsár.

Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna sjóðsins.

Fjárvarsla
17. GR.
Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á fjármunum sjóðsins og meðferð þeirra.

Stjórn sjóðsins er þó heimilt að fela banka eða annarri fjármálastofnun fjárvörslu fjármuna sjóðsins.

Sameining og niðurlagning sjóðsins
18. GR.
Til að sameina sjóðinn öðrum sjóði eða leggja hann niður þurfa allir virkir hollvinir að samþykkja á aðalfundi sjóðsins. Leita skal samþykkis sýslumannsins á Sauðárkróki fyrir niðurlagningu eða sameiningu.

Verði sjóðurinn lagður niður skulu eignir hans renna til hliðstæðra verkefna og tilgreind eru í 3. gr. eftir nánari ákvörðun stjórnarinnar.

Staðfesting sýslumanns
19. GR.
Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 140 frá 2008 um framkvæmd laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. 7. gr. laga nr. 19 frá 1988.

_____

Samþykkt á stjórnarfundi Forritara framtíðarinnar í Reykjavík

_____

Undirrituð af stjórn sjóðsins þann 28. janúar 2015

_____

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.