Fjórar milljónir veittar í styrki til skóla
Markmiðið að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum
Miðvikudaginn 22. október, klukkan 14:00, verða styrkir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar afhentir í húsakynnum CCP að Grandagarði 8. Styrkirnir verða afhentir í viðurvist kennara og barna frá þeim skólum sem hlutu styrkina að þessu sinni.
Sjóðnum bárust alls 39 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum, eða 67%. Virði styrkjanna er samtals um fjórar milljónir króna. Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur. Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli fjögurra skóla: Smáraskóla, Kirkjubæjarskóla, Grunnskólans í Sandgerði og Grunnskóla Vestmannaeyja. Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hóf starfsemi sína í byrjun árs 2014 og er megin hlutverk sjóðsins að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað, allt eftir þörfum hvers og eins. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en fyrri úthlutunin fór fram 21. febrúar sl. Var þá úthlutað styrkjum að verðmæti fjórar milljónir króna. Samtals hefur því sjóðurinn úthlutað virði tæpra 8 milljóna króna í styrki til skóla á þessu ári.
Guðmundur Tómas Axelsson, stjórnamaður í Forriturum framtíðarinnar:
„Við erum mjög ánægð með þær viðtökur sem sjóðurinn hefur fengið og þann fjölda umsókna sem hafa borist. Við erum stolt af því að hafa náð að úthluta styrkjum að verðmæti 8 milljóna á fyrsta starfsári. Við höfum fengið til samstarfs við okkur flotta hollvini, bæði einkafyrirtæki sem og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem sýnir okkur hvernig atvinnulífið og hið opinbera geta unnið saman og náð árangri.“
Kjartan Kjartansson, skólastjóri Kirkjubæjarskóla:
„Fyrir Kirkjubæjarskóla er þessi stuðningur ómetanlegur. Hann hjálpar okkur að vekja áhuga nemenda á forritun og þar með víkka sjóndeildarhring þeirra þegar kemur að tækni og þeim möguleikum sem forritun hefur upp á að bjóða.“
Soffía Vagnsdóttir, skólastjóri Grunnskólans í Bolungarvík:
„Við erum afar þakklát fyrir styrkinn úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar sem við fengum í febrúar. Við vildum í upphafi einbeita okkur að því að gefa kennurum innsýn í ævintýraheim forritunar. Áhuginn var mikill og námskeiðin frá Skema fyrir kennarana voru frábær. Að yfirfæra þá vitneskju yfir til nemenda er líka dýrmæt upplýsingagjöf. Margir nemendur ætla að verða tölvumenn/konur þegar þeir verða stórir. Við erum líka óendanlega þakklát fyrir þann tæknibúnað sem við fengum að gjöf og getum nú státað af frábærri aðstöðu hér í skólanum á sviði tölvubúnaðar. Við höfum haldið áfram kennslu á sviði forritunar og nú er búið að setja forritun formlega inn í tölvukennsluna hjá okkur. Áhugasamasti kennarinn er nú til dæmis í áframhaldandi námi í forritun.“
Hollvinir sjóðsins
Að sjóðnum koma fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. Þau leggja honum lið með því að leggja honum til fjármagn og tæknibúnað. Bakhjarlar og hollvinir sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB (Reiknistofa bankanna), CCP, Cyan veflausnir, Össur og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB og stjórnarmaður í Forriturum framtíðarinnar í síma 863-9941 eða Katrín Dóra Þorsteinsdóttir forstöðumaður hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins og formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar í síma 824-6116.