Ný stjórn Forritara framtíðarinnar

Styrkir veittir í skóla fyrir um 8 milljónir á fyrsta starfsári.

Fyrsti aðalfundur sjóðsins Forritara framtíðarinnar haldinn í húsakynnum Reiknistofu bankanna 5. febrúar s.l. Sjóðurinn hóf starfssemi sína í byrjun árs 2014 og er megin hlutverk sjóðsins er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað, allt eftir þörfum hvers og eins.

Alls bárust sjóðnum 91 umsókn um styrki frá grunn- og framhaldsskólum landsins árið 2014 og úthlutaði sjóðurinn styrkjum að andvirði tæpra 8 milljóna króna. Skólarnir sem fengu styrkina eru Grunnskóli Bolungarvíkur, Áslandsskóli, Brúarskóli, Kópavogsskóli, Smáraskóli, Kirkjubæjarskóli, Grunnsólinn í Sandgerði og Grunnskóli Vestmannaeyja.

Ný stjórn var kjörin á fundinum en fjórir af fimm núverandi stjórnarmeðlimum gáfu kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn sjóðsins en það eru þau Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB, Katrín Dóra Þorsteinsdóttir forstöðumaður hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins, Ragnhildur Geirsdóttir framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans og Sigríður Olgeirsdóttir framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka. Gísli Þorsteinsson markaðsstjóri Nýherja gaf ekki kost á sér áfram og tekur Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP sæti hans í stjórninni.

Er Ísland að hellast úr lestinni í tækniþróun?

Undir önnur mál á aðalfundinum kom fram í erindi Ragnars Þórs Péturssonar sérfræðings í skólamálum hjá Skema að Evrópusambandið hefur skilgreint færni í upplýsingatækni, þar á meðal forritun, sem lykilfærni framtíðarinnar. Samkvæmt könnun sem sambandið gerði á meðal 27 Evrópuríkja kemur í ljós að 95% af þeim eru annaðhvort byrjuð á að setja forritun á námsskrá eða ætla að gera þá á næstunni. Ísland er ekki þar á meðal.

Mikil ánægja með styrkina í skólunum

Grunnskóli Bolungarvíkur hlaut styrk í fyrri úthlutun sjóðsins og hefur formlega sett forritun inn í tölvukennsluna hjá sér. Soffía Vagnsdóttir fyrrverandi skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur sagði frá því á aðalfundinum hvaða þýðingu styrkurinn frá Forriturum framtíðarinnar hafði fyrir skólann. „Við erum stolt og innilega þakklát fyrir að hafa dottið í þennan lukkupott. Við hefðum aldrei getað fjárfest í þessu sjálf þ.e. tölvubúnaðinum og námskeiðunum. Ég lít á þetta sem stóran hluta af endurmenntun kennara auk þess sem við getum nú státað af frábærri aðstöðu í skólanum á sviði tölvubúnaðar. Skólinn hefur sett forritun á námsskrá og hefur styrkurinn leitt til margfeldisáhrifa og vakið upp áhuga í nágrannaskólunum í kring“.

Guðmundur Ásmundsson skólastjóri Kópavogsskóla flutti einnig erindi á fundinum og tók undir með Soffíu. „Styrkurinn frá Forriturum framtíðarinnar er ákaflega mikilvægur fyrir Kópavogsskóla. Hann flýtir fyrir allri uppbyggingu í lesveri skólans og eykur fjölbreytni þeirra kennsluaðferða sem skólinn býður nemendum sínum. Krakkar á grunnskólaaldri eru mjög móttækileg og tilbúin að prófa nýja hluti auk þess að vera mjög frjó í hugsun. Forritunarkennsla fer inn í námsskrá hjá Kópavogsskóla“.

Hollvinir sjóðsins

Hollvinir sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB (Reiknistofa bankanna), CCP, Cyan veflausnir, Össur, Síminn, Advania, Icelandair og Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB og stjórnarmaður í Forriturum framtíðarinnar í síma 863-9941 eða Katrín Dóra Þorsteinsdóttir forstöðumaður hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins og formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar í síma 824-6116.