Úthlutun ársins 2022 lokið
Úthlutun úr sjóði Forritara framtíðarinnar hefur nú farið fram og styrkti sjóðurinn 18 skóla sem nemur rúmlega 5 milljónum króna í ár. Styrkir skiptast í tvo meginflokka, annars vegar er úthlutað um 1,9 milljónum króna vegna námskeiða sem kennarar geta sótt til að efla sig í forritunarkennslu og hins vegar er úthlutað um 3,4 milljónum króna til kaupa á smátækjum í forritunar- og tæknikennslu ásamt úthlutun á notuðum tölvubúnaði sem hollvinir FF gefa sjóðnum árlega. Skólarnir sem fengu styrk í ár eru: Höfðaskóli Skagaströnd, Patreksskóli, Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Hvassaleitisskóli, Sjálandsskóli, Skarðshlíðarskóli, Flataskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskólinn á Ísafirði, Salaskóli, Sandgerðisskóli, Grunnskólinn á Hólmavík, Setbergsskóli, Kársnesskóli, Brúarásskóli, Kerhólsskóli í Grímsnesi, Grunnskóli Vestmannaeyja og Vogaskóli.
Ljóst er að þörf skóla er mikil á þessu sviði því í ár var sótt um styrki sem í heild nam rúmum 10 milljónum króna og því var ekki hægt að veita öllum styrk sem sóttu um. Þegar valið var úr umsóknum var horft til þess hvort skólar hafi sótt um og fengið styrk síðasta skólaár og var sett þak á styrkina; að hámarki var hægt að fá 200 þúsund króna styrk til að sækja námskeið í forritunarkennslu og að hámarki 250 þúsund króna styrk til tækjakaupa. Við vonumst til að styrkurinn komi að góðum notum og styðji við hlutverk Forritara framtíðarinnar sem er að efla forritunar- og tæknimenntun í skólum landsins. Við þökkum hollvinum sjóðsins kærlega fyrir þeirra framlag.
Hollvinir sjóðsins árið 2022 eru: RB, Íslandsbanki, Landsbankinn, Marel, CCP, Bentley Systems og Webmo design.
Stjórn Forritara framtíðarinnar:
Arnheiður Guðmundsdóttir, Skýrslutæknifélag Íslands
Birgitta Strange, Marel
Friðrik Guðjón Guðnason, Landsbankinn
Linda Björg Stefánsdóttir, Reiknistofu bankanna
Sigfríður Sigurðardóttir, CCP