Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að leggja Forriturum framtíðarinnar lið með tveggja milljóna króna styrk í gegnum GERT verkefnið. Forritarar framtíðarinnar er sjóður sem hefur það að markmiði að forritun verði kennd sem hluti af skólanámskrá grunn- og framhaldskóla á Íslandi. Með styrkveitingunni bætist ráðuneytið í hóp hollvina sjóðsins.
Auk menntamálaráðuneytisins hafa Icelandair, Promens og Össur bæst við á hollvinalista Forritara framtíðarinnar en á honum eru fyrir CCP, RB (Reiknistofa bankanna), Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, Microsoft og Cyan veflausnir. Skema ásamt RB eru stofnaðilar sjóðsins.
Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun, ráðgjöf og tækjabúnað, allt eftir þörfum umsóknaraðila. Sjóðurinn úthlutar styrkjum til grunn- og framhaldsskóla tvisvar á ári. Í síðustu úthlutun sem fram fór í febrúar á þessu ári var heildarvirði styrkja á fjórðu milljón en þeir runnu til Grunnskólans á Bolungarvík, Áslandsskóla í Hafnarfirði, Brúarskóla í Reykjavík og Kópavogsskóla.
„Forritarar framtíðarinnar er gott dæmi um hvernig einkaframtakið og hið opinbera geta tekið höndum saman og sýnt frumkvæði við að efla starf grunn- og framhaldsskóla landsins. Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur mikilvægt að efla tæknimenntun í landinu og er forritun mikilvægur þáttur í því, enda er tæknimenntun mikilvægur þáttur í samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið“ segir Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
„Aðkoma Mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir sjóðinn Forritara framtíðarinnar. Þetta er ákveðin viðurkenning á okkar starfi og erum við mjög stolt af því að ráðuneytið líti til okkar sem afls sem raunverulega getur breytt og haft áhrif á hlutina. Þetta styrkir ekki bara sjóðinn fjárhagslega heldur einnig út frá ímynd. Eins er frábært að fleiri öflug fyrirtæki eins og Icelandair, Promens og Össur komi inn“ segir Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB og stjórnarmaður í Forriturum framtíðarinnar.