by Guðmundur Tómas Axelsson | feb 27, 2014 | Fréttir
Búið er að opna fyrir umsóknir í sjóðinn og rennur umsóknarfrestur út 1. maí 2014. Um er að ræða seinni úthlutun fyrir árið 2014 en sjóðurinn úthlutar styrkjum samtals tvisvar á ári.
Hvetjum við alla grunn- og framhalsskóla sem og sveitarfélög til að sækja um.
Í fyrri úthlutun ársins voru veittir styrkir fyrir á fjórðu milljón og hlutu Brúarskóli, Grunnskólinn á Bolungarvík, Áslandsskóli og Kópavogsskóli styrkina að þessu sinni.
ATH: síðasta umsókn gildir ekki í þessari úthlutun þ.e. senda þarf inn nýja umsókn.
by Guðmundur Tómas Axelsson | feb 21, 2014 | Fréttir
Í dag, föstudaginn 21. febrúar klukkan 15:00, munu styrkir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar verða afhentir í Ráðhúsinu í Reykjavík. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun afhenda styrkina í viðurvist kennara og barna frá þeim grunnskólum sem hlutu styrkina að þessu sinni.
Ýmsar skemmtilegar uppákomur verða fyrir börnin og mun Vísinda Villi meðal annars gera tilraunir auk þess sem Skema mun bjóða upp á skemmtilega uppákomu tengda forritun.
Sjóðnum bárust alls 49 umsóknir, flestar frá grunnskólum, en alls var sótt um 930 tölvur/spjaldtölvur, forritunarkennslu fyrir 2.700 nemendur og 340 kennara. „Viðbrögðin fóru fram úr björtustu vonum og óhætt er að segja að þörfin sé mikil. Helsta verkefni sjóðsins núna er að fá fleiri bakhjarla til þess að geta styrkt fleiri verkefni.“ segir Katrín Dóra Þorsteinsdóttir formaður stjórnar sjóðsins.
Virði styrkjanna eru á fjórðu milljón og skipast þeir á milli fjögurra skóla að þessu sinni:
- Grunnskóla Bolungarvíkur
- Áslandsskóla í Hafnarfirði
- Brúarskóla í Reykjavík
- Kópavogsskóla
Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar, þjálfun kennara til forritunarkennslu og forritunarnámskeiða fyrir nemendur. Innifalið er þjálfun, handleiðsla og eftirfylgni sem Skema mun sinna.
Markmiðið að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins
Í byrjun árs ýttu Reiknistofa bankanna (RB) og Skema úr vör sjóðnum „Forritarar framtíðarinnar“ en megin hlutverk sjóðsins er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun, ráðgjöf og tækjabúnað, allt eftir þörfum umsóknaraðila.
Atvinnulífið tekur höndum saman
Að sjóðnum koma fyrirtæki af öllum stærðum og leggja þau honum lið á ýmsan máta, svo sem með fjárframlögum, tæknibúnaði, þekkingu og ráðgjöf. Bakhjarlar sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, Microsoft, RB, CCP og Cyan veflausnir.
Skortur á tæknimenntuðu fólki
Upplýsingatæknigeirinn vex hratt og má segja að fáar atvinnugreinar geti í dag þrifist án tækni. Ísland stendur frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu fólki í landinu en samkvæmt skýrslu starfshóps á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtaka iðnaðarins útskrifast um 500 manns á ári af raungreina- og tæknisviðum Háskóla landsins á meðan þörfin er um 1.000 manns.
Sjóðurinn stefnir á að úthluta tvisvar á ári en næsti umsóknarfrestur í sjóðinn er 1. apríl 2014. Opnað verður fyrir umsóknir 1. mars næst komandi á www.forritarar.is.
Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB og stjórnarmaður í Forriturum framtíðarinnar í síma 863-9941 eða Katrín Dóra Þorsteinsdóttir forstöðumaður hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins og formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar í síma 824-6116.