Bjóða 224 íslenskum stelpum á aldrinum 8-13 ára á forritunarnámskeið.

Í tengslum við evrópsku forritunarvikuna Europe Code Week sem fram fer 15.–23. október næstkomandi hefur sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hlotið styrk frá Google til að kveikja áhuga á forritun hjá stelpum.

Forritarar framtíðarinnar munu í samstarfi við Google og Skema nota styrkinn til að bjóða stelpum á aldrinum 8 til 13 ára upp á 16 forritunarnámskeið helgina 22. til 23. október, þeim að kostnaðarlausu. Alls eru laus sæti fyrir 224 stelpur og verða námskeiðin í tveimur aldursflokkum, 8 til 10 ára og 11 til 13 ára. Um er að ræða grunnkennslu í forritun sem gefur góða innsýn inn í skapandi heim tækninnar og tekur hvert námskeið 1 klukkustund og 15 mínútur. Skráning fer fram á www.stelpurkoda.is.

Með þessu framtaki vilja Forritarar framtíðarinnar vekja áhuga hjá stelpum á forritun og að hún henti stelpum jafn vel og strákum. Í leiðinni er vakin athygli á almennum skorti á stelpum í tæknigeiranum en algengt er að í tæknigeira séu kynjahlutföll 75% karlar og 25% konur. Þetta er að sjálfsögðu breytilegt eftir fyrirtækjum og löndum en endurspeglar ágætlega skráða nemendur í tölvunarfræði við HÍ og HR í dag.

Í evrópsku forritunarvikunni (www.codeweek.eu) sameinast milljónir barna, foreldra, kennarar, frumkvöðla og stefnumarkandi aðila í Evrópu á viðburðum og námskeiðum gagngert til að læra forritun og auka tæknilega getu sína. Markmið vikunnar er að gera forritun sýnilegri, svipta hulunni af hæfileikunum og stefna áhugasömum saman í lærdóm helguðum tækninni.

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar var stofnaður árið 2014 með það að markmiði að efla forritunar- og tækni­menntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Frá stofnun hefur sjóðurinn nú úthlutað sem svarar 30 milljónum króna í styrki til grunn- og framhaldsskóla og þjálfað hátt í 300 kennara til að kenna forritun.

Hollvinir sjóðsins

Að sjóðnum standa fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. Þau leggja honum lið með fjármagni og tæknibúnaði. Hollvinir sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB (Reiknistofa bankanna), Skema, CCP, Cyan veflausnir, Össur, Icelandair, Síminn, Advania, KOM ráðgjöf, Samtök iðnaðarins og Mennta- og menningar­mála­ráðuneytið. Stofnaðilar sjóðsins eru RB og Skema.