by Arnheiður Guðmundsdóttir | jún 19, 2018 | Fréttir
Fréttatilkynning 18. júní 2018:
Alls fengu 30 skólar víðs vegar á landinu úthlutaðan fjárstyrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Heildarúthlutun sjóðsins fyrir árið 2018 er 4.100.000 í formi fjárstyrkja og 4.550.000 í formi tölvubúnaðar. Styrkurinn skal nýttur í að þjálfa kennara til að búa betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur. Tilgangur sjóðsins er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins og frá stofnun hans árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir ríflega 40 milljónir króna.
Í ár fengu yfir 30 skólar styrk frá sjóðnum. Skólanir skuldbinda sig með styrknum til að hafa forritun sem hluta af námskrá skólans í að minnsta kosti tvö ár; Síðuskóli, grunnskóli Vestmannaeyja, Bláskógaskóli Laugarvatni, grunnskólinn á Eskifirði, Þelamerkurskóli, grunnskóli Grindavíkur, Sæmundarskóli, Lindaskóli, Dalvíkurskóli, grunnskóli Fjallabyggðar, Bláskógaskóli Reykholti, grunnskóli Borgarfjarðar eystra, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Vallaskóli, grunnskóli Grundarfjarðar, Vogaskóli, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, grunnskóli Drangsness, Hvolsskóli, Sjálandsskóli, Menntaskólinn að Laugarvatni, Álfhólsskóli, Skarðshlíðarskóli, Lágafellsskóli, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Gerðaskóli, grunnskóli Djúpavogs og Lundarskóli.
„Það er ánægjulegt að geta stutt við forritunarkennslu í skólum landsins á þennan hátt. Auk þess að stuðla að aukinni fræðslu þá er einnig markmið sjóðsins að auka áhuga barna og unglinga á forritun og tækni. Það er ljóst að það er mikilvægt í skólastarfi að efla forritunarkunnáttu skólabarna enda byggja þær tækniframfarir sem eru að eiga sér stað núna á stafrænum grunni sem tengir ýmsa tækni saman og mun hafa áhrif á fyritæki og samfélög til lengri tíma,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar.
Um Forritara framtíðarinnar
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Advania, KOM,WebMo og Menntamálaráðuneytið. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir forstöðumaður markaðsmála hjá RB, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP sem er einnig formaður stjórnar.
Nánari upplýsingar veitir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar og skrifstofustjóri CCP, í síma 697-3691. Sjá einnig www.forritarar.is.
by Arnheiður Guðmundsdóttir | maí 25, 2018 | Fréttir
Hvetjum alla skóla til að sækja um styrk til kennslu/notaðar borðtölvur.
by Guðmundur Tómas Axelsson | jan 8, 2018 | Fréttir
Fréttatilkynning 8. janúar 2018.
Tíu skólar styrktir um 6,5 milljónir króna í úthlutun ársins 2017
Ákveðin hefur verið úthlutun fyrir árið 2017 úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar, en tilgangur hans er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Sjóðnum bárust 32 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Styrkir sjóðsins eru í formi tölvubúnaðar og fjárstyrks til þjálfunar kennara til að búa þá betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur, samtals um sex og hálf milljón króna að virði.
Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli ellefu skóla, en þeir eru:
- Kársnesskóli
- Höfðaskóli
- Varmahlíðarskóli
- Grunnskóli Borgarfjarðar Eystri
- Víkurskóli
- Bíldudalsskóli
- Vatnsendaskóli
- Kópavogsskóli
- Grunnskólinn í Hveragerði
- Grunnskólinn í Þorlákshöfn
Frá stofnun sjóðsins árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir hátt í 40 milljónir króna. Á árinu 2017 bættust við öflugir bakhjarlar Forritara framtíðarinnar en þeir eru fyrirtækin Marel og Advania.
„Það blandast engum hugur um mikilvægi tækni- og forritunarþekkingar í samfélagi nútímans. Við hjá sjóðnum erum afar stolt af því að geta stutt við skóla landsins í þessum efnum og þar með eflt þá í að leggja þann grunn sem þarf til að byggja á til framtíðar. Við finnum það að starfið skiptir skólana máli og fyrir auknum áhuga á forritunarkennslu í skólunum. Þjóðir sem best standa hvað tækni varðar búa við ákveðið forskot. Forritun eða innsýn í forritun er nokkuð sem nýtist ungmennum til framtíðar, ekki ósvipað og fólk býr að því að hafa fengið kennslu í erlendum tungumálum, landafræði og öðrum námsgreinum,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar.
Frá afhendingu í Kársnesskóla. Á myndinni eru auk ónefndra barna í tölvuveri, Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar og meðstjórnandi í Forriturum framtíðarinnar, Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri og meðstjórnandi í Forriturum Framtíðarinnar, Björg Baldursdóttir skólastjóri Kársnesskóla í Kópavogi, og Vala Nönn Gautsdóttir og Jódís Ólafsdóttir tölvukennarar í Kársnesskóla. Myndina tók Anton Brink ljósmyndari.
Ný stjórn kosin
Á aðalfundi Forritara framtíðarinnar sem fram fór 22. desember síðast liðinn var kosin ný stjórn sjóðsins. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP og formaður stjórnar. Elsa og Friðrik koma ný í stjórn en Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri WebMo Design og Ragnhildur Geirsdóttir aðstoðarforstjóri Wow air gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu.
Um Forritara framtíðarinnar
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Cyan, KOM, Marel og Advania.
by Guðmundur Tómas Axelsson | okt 7, 2016 | Fréttir
Bjóða 224 íslenskum stelpum á aldrinum 8-13 ára á forritunarnámskeið.
Í tengslum við evrópsku forritunarvikuna Europe Code Week sem fram fer 15.–23. október næstkomandi hefur sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hlotið styrk frá Google til að kveikja áhuga á forritun hjá stelpum.
Forritarar framtíðarinnar munu í samstarfi við Google og Skema nota styrkinn til að bjóða stelpum á aldrinum 8 til 13 ára upp á 16 forritunarnámskeið helgina 22. til 23. október, þeim að kostnaðarlausu. Alls eru laus sæti fyrir 224 stelpur og verða námskeiðin í tveimur aldursflokkum, 8 til 10 ára og 11 til 13 ára. Um er að ræða grunnkennslu í forritun sem gefur góða innsýn inn í skapandi heim tækninnar og tekur hvert námskeið 1 klukkustund og 15 mínútur. Skráning fer fram á www.stelpurkoda.is.
Með þessu framtaki vilja Forritarar framtíðarinnar vekja áhuga hjá stelpum á forritun og að hún henti stelpum jafn vel og strákum. Í leiðinni er vakin athygli á almennum skorti á stelpum í tæknigeiranum en algengt er að í tæknigeira séu kynjahlutföll 75% karlar og 25% konur. Þetta er að sjálfsögðu breytilegt eftir fyrirtækjum og löndum en endurspeglar ágætlega skráða nemendur í tölvunarfræði við HÍ og HR í dag.
Í evrópsku forritunarvikunni (www.codeweek.eu) sameinast milljónir barna, foreldra, kennarar, frumkvöðla og stefnumarkandi aðila í Evrópu á viðburðum og námskeiðum gagngert til að læra forritun og auka tæknilega getu sína. Markmið vikunnar er að gera forritun sýnilegri, svipta hulunni af hæfileikunum og stefna áhugasömum saman í lærdóm helguðum tækninni.
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar var stofnaður árið 2014 með það að markmiði að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Frá stofnun hefur sjóðurinn nú úthlutað sem svarar 30 milljónum króna í styrki til grunn- og framhaldsskóla og þjálfað hátt í 300 kennara til að kenna forritun.
Hollvinir sjóðsins
Að sjóðnum standa fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. Þau leggja honum lið með fjármagni og tæknibúnaði. Hollvinir sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB (Reiknistofa bankanna), Skema, CCP, Cyan veflausnir, Össur, Icelandair, Síminn, Advania, KOM ráðgjöf, Samtök iðnaðarins og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Stofnaðilar sjóðsins eru RB og Skema.
by Guðmundur Tómas Axelsson | okt 4, 2016 | Fréttir
Á aðalfundi Forritara framtíðarinnar, sem fram fór fimmtudaginn 29. september síðastliðinn, var sjóðnum jafnframt kjörin ný stjórn.
Í stjórninni sitja áfram Guðmundur Tómas Axelsson, markaðs- og samskiptastjóri Reiknistofu bankanna (RB), Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans og Sigfríður Sigurðardóttir, skrifstofustjóri CCP. Inn í stjórnina koma ný Bjarki Snær Bragason, deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri og Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský, og koma í stað Katrínar Dóru Þorsteinsdóttur, forstöðumanns hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins og Sigríðar Olgeirsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.
by WebMo Design | jún 30, 2016 | Fréttir
Búið er að ákveða úthlutun fyrir árið 2016 úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar.
Sjóðnum bárust um 30 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Virði styrkjanna er samtals um tólf milljónir króna. Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur.
Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli fjórtán skóla: Vatnsendaskóla, Álfhólsskóla, Grunnskóla Vesturbyggðar, Tálknafjarðarskóla, Auðarskóla, Klébergsskóla, Oddeyrarskóla, Glerárskóla, Víðistaðaskóla, Hvaleyrarskóla, Blönduskóla, Grunnskóla Borgarfjarðar, Heiðarskóla og Ingunnarskóla.
Óskum við þessum skólum til hamingju og hvetjum um leið alla skóla til þess að sækja aftur um að ári 2017.