Opið fyrir umsóknir 2020

Búið er að opna fyrir umsóknir hjá Forriturum framtíðarinnar fyrir árið 2020. 

Eins og fyrri ár er hægt að sækja um námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu og yfirfarinn notaðan tölvubúnað. Í ár verður einnig hægt er að sækja um styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu og styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu. Þessari nýjung sem var í boði í fyrsta sinn 2019  var tekið vel og allmargir sem fengu styrki þá. 

HÆGT ER AÐ SÆKJA UM:

  • Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu.
  • Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfistjórum  hollvina FF.
  • Styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu. 
  • Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu.

Hægt er að sækja um styrk í einum eða fleiri af ofangreindum flokkum.

SKILYRÐI STYRKVEITINGA
Skólinn tilgreinir þá fjárupphæð sem hann telur sig þurfa í þeim flokkum sem sótt er um.
Ekki er hægt að lofa því að skólinn fái styrk fyrir allri upphæðinni sem sótt er um.

  • Ef sótt er um styrk til námsefnisgerðar er skilyrði að námsefnið sé opið með Create Commons og sé skilað inn til Forritara Framtíðarinnar sem mun gera það aðgengilegt á heimasíðu sinni þannig að aðrir skólar geti nýtt efnið.
  • Ef sótt er um styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu þarf skólinn að tryggja að sótt sé námskeið í notkun tækjanna.
UMSÓKNARFRESTUR ER TIL 15. MAÍ 2020

Fleiri skólar en áður sækja um styrk til Forritara framtíðarinnar

Fréttatilkynning 10. júní 2019:

Fleiri skólar en áður sækja um styrk til Forritara framtíðarinnar

— Styrkir til skóla nema 12 milljónum króna. Nýjar úthlutunarreglur sjóðsins auka möguleika í styrkveitingum. Styrkir ná nú til námsefnisgerðar og minni tækja.

 

Mikil ánægja er með nýjar áherslur Forritara framtíðarinnar og umsóknir frá skólum hafa aldrei verið fleiri. Tilgangur sjóðsins er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Í ár styrkir sjóðurinn 30 skóla um sem nemur tæpum 12 milljónum króna að andvirði. Styrkur skiptast í tvo meginflokka, annars vegar tæpar 7,8 milljónir vegna námskeiða, námsefnisgerðar og kaupa á smærri tækjum í forritunar og tæknikennslu, og hins vegar rúmar 4,2 milljónir króna vegna tölvubúnaðar. Ljóst er að þörf skóla er mikil á þessu sviði því í ár var sótt um styrki sem í heild nema yfir 40 milljónum króna.

Að loknum stefnumótunarfundi með hagsmunaaðilum sjóðsins í vor voru gerðar breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins þannig að styrkir næðu líka til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu að því tilskyldu að námsefnið gæti nýst víðar og til kaupa á minni tækjum til nota við slíka kennslu. Þetta er viðbót við styrki sem áður hafa verið veittir til námskeiða fyrir kennara í forritunar- og tæknikennslu og tölvubúnaðar sem nýtist í skólum eftir að hafa verið gerður upp og yfirfarinn.

Þeir skólar sem fengu styrki á árinu eru: Sangerðisskóli, Vatnsendaskóli, Giljaskóli, Fellaskóli, Ingunnarskóli, Holtaskóli, Háaleitisskóli Reykjanesbæ, Leikskólinn Álfaheiði, Árskóli, Hrafnagilsskóli, Klébergsskóli, Bíldudalsskóli, Selásskóli, Smáraskóli, Grunnskóli Seltjarnarness, Skarðshlíðaskóli, Fossvogsskóli, Oddeyrarskóli, Foldaskóli, Flataskóli, Vættaskóli, Brekkubæjarskóli, Nesskóli, Gunnskólinn Hellu, Njarðvíkurskóli, Norðlingaskóli, Bláskógarskóli, Hólabrekkuskóli, Fellaskóli Fellabæ, Húnavatnsskóli og Háteigsskóli. Við óskum þeim öllum til hamingju og hvetjum þá sem ekki fengu styrk í ár til að sækja um aftur á næsta ári.

Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar:

„Breytingarnar koma í kjölfar samráðs við þá sem notið hafa stuðnings Forritara framtíðarinnar. Okkur þótti mikilvægt að hlusta á hverjar þarfir þeirra væru og þróa sjóðinn í takt við breytingar í umhverfi skólanna og laga starfsemi hans að þörfum þeirra. Með þessu uppfyllum við betur markmið sjóðsins, sem er að stuðla að aukinni fræðslu og áhuga meðal barna og unglinga á forritun og tækni, að tækjavæða skólana, auka þjálfun og endurmenntun kennara og stuðla að því að forritun verði hluti af námskrá grunn- og framhaldsskóla. Það gleður okkur mjög hversu góðar viðtökur nýjar áherslur sjóðsins hafa fengið og við hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar og samstarfs við grunn- og framhaldsskóla landsins.“

Um Forritara framtíðarinnar:

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru RB, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, KOM ráðgjöf, Webmo design og Mennta- og menningarmála-ráðuneytið.

Nánari upplýsingar veitir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar og skrifstofustjóri CCP, í síma 697-3691. Sjá einnig www.forritarar.is.

 

Stefnumótun 2019

Stjórn Forritara framtíðarinnar fékk nokkra aðila með sér í stefnumótunarvinnu í mars til að skerpa á starfssviði sjóðsins. Eðalhópur sem kom með margar frábærar hugmyndir að því hvernig framlag sjóðsins geti styrkt sem best við það markmið að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Þökkum þeim sem tóku þátt kærlega fyrir þeirra framlag.

Þátttakendur í stefnumótun 2019

Búið að opna fyrir umsóknir hjá Forriturum framtíðarinnar 2019

Búið er að opna fyrir umsóknir hjá Forriturum framtíðarinnar fyrir árið 2019. Í fyrra fengu 30 skólar víðs vegar á landinu úthlutaðan fjárstyrk úr sjóðnum. Heildarúthlutun sjóðsins fyrir árið 2018 var 4.100.000 í formi fjárstyrkja og 4.550.000 í formi tölvubúnaðar.

Eins og fyrri ár er hægt að sækja um námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu og yfirfarinn tölvubúnað. Í ár verður einnig hægt er að sækja um styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu og styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu. Þetta er nýjung hjá sjóðnum sem við vonumst til að skólar sjái hag í.

HÆGT ER AÐ SÆKJA UM:

  • Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu.
  • Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfistjórum  hollvina FF.
  • Styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu. (NÝTT)
  • Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu. (NÝTT)

Hægt er að sækja um styrk í einum eða fleiri af ofangreindum flokkum.

SKILYRÐI STYRKVEITINGA
Skólinn tilgreinir þá fjárupphæð sem hann telur sig þurfa í þeim flokkum sem sótt er um. Ekki er hægt að lofa því að skólinn fái styrk fyrir allri upphæðinni sem sótt er um.

  • Ef sótt er um styrk til námsefnisgerðar er skilyrði að námsefnið sé opið með Create Commons og sé skilað inn til Forritara Framtíðarinnar sem mun gera það aðgengilegt á heimasíðu samtakanna þannig að aðrir skólar geti nýtt efnið.
  • Ef sótt er um styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu þarf skólinn að tryggja að sótt sé námskeið í notkun tækjanna.
UMSÓKNARFRESTUR ER TIL 30. APRÍL 2019

Aðalfundur Forritara framtíðarinnar fer fram 17. desember, 2018

Aðalfundur Forritara framtíðarinnar verður haldinn mánudaginn 17. desember kl. 11:00 og fer fram í húsnæði Landsbankans, Austurstræti 11, 101 Reykjavík.

Dagskrá aðalfundar fer fram samkvæmt 10. gr. skipulagsskrá.
(1) Stjórn félagsins skal skýra frá hag félagsins, rekstri þess og úthlutun styrkja á liðnu starfsári
(2) Ársreikningur þar síðasta árs lagður fram til samþykktar.
(3) Kosning stjórnar
(4) Kosning endurskoðenda
(5) Kosning um breytingar á skipulagsskrá
(6) Önnur mál

Tilnefningar til kosninga í stjórn og endurskoðunar félagsins þurfa að liggja fyrir hjá formanni stjórnar eigi síðar en fyrir upphaf aðalfundar.

Óski hollvinir að bera upp önnur mál á aðalfundi ber að senda þau til allra hollvina með að minnsta kosti 7 daga fyrirvara.

Vona að við sjáum fulltrúa allra hollvina á aðalfundinum og biðjum ykkur að tilkynnið þátttöku á aðalfundinn í netfang: sigfridur@ccpgames.com

F.h. stjórnar Forritara framtíðarinnar
Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður

30 skólar fengu úthlutað úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Fréttatilkynning  18. júní 2018:

Alls fengu 30 skólar víðs vegar á landinu úthlutaðan fjárstyrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Heildarúthlutun sjóðsins fyrir árið 2018 er 4.100.000 í formi fjárstyrkja og 4.550.000 í formi tölvubúnaðar. Styrkurinn skal nýttur í að þjálfa kennara til að búa betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur. Tilgangur sjóðsins er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins og frá stofnun hans árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir ríflega 40 milljónir króna.

Í ár fengu yfir 30 skólar  styrk frá sjóðnum. Skólanir skuldbinda sig með styrknum til  að hafa forritun sem hluta af námskrá skólans í að minnsta kosti tvö ár; Síðuskóli, grunnskóli Vestmannaeyja, Bláskógaskóli Laugarvatni, grunnskólinn á Eskifirði, Þelamerkurskóli, grunnskóli Grindavíkur, Sæmundarskóli, Lindaskóli, Dalvíkurskóli, grunnskóli Fjallabyggðar, Bláskógaskóli Reykholti, grunnskóli Borgarfjarðar eystra, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Vallaskóli, grunnskóli Grundarfjarðar, Vogaskóli, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, grunnskóli Drangsness, Hvolsskóli, Sjálandsskóli, Menntaskólinn að Laugarvatni, Álfhólsskóli, Skarðshlíðarskóli, Lágafellsskóli, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Gerðaskóli, grunnskóli Djúpavogs og Lundarskóli.

„Það er ánægjulegt að geta stutt við forritunarkennslu í skólum landsins á þennan hátt. Auk þess að stuðla að aukinni fræðslu þá er einnig markmið sjóðsins að auka áhuga barna og unglinga á forritun og tækni. Það er ljóst að það er mikilvægt í skólastarfi að efla forritunarkunnáttu skólabarna enda byggja þær tækniframfarir sem eru að eiga sér stað núna á stafrænum grunni sem tengir ýmsa tækni saman og mun hafa áhrif á fyritæki og samfélög til lengri tíma,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar.

Um Forritara framtíðarinnar

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Advania,  KOM,WebMo og Menntamálaráðuneytið. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir forstöðumaður markaðsmála hjá RB, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP sem er einnig formaður stjórnar.

 

Nánari upplýsingar veitir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar og skrifstofustjóri CCP, í síma 697-3691. Sjá einnig www.forritarar.is.