Skólar nýta styrkina vel

Í heildina hafa Forritarar framtíðarinnar úthlutað rúmum 35 milljónum króna til námskeiðs og tækjakaupa auk gerðar námsefnis. Einnig hefur sjóðurinn gefið 537 borðtölvur frá upphafi til skóla.
Þörfin er mikil hjá skólunum og geta nýir hollvinir alltaf bæst í hópinn og stutt þannig við sjóðinn og þannig stuðlað að góðri tæknikennslu í skólunum.

Eftirfarandi skólar fengu úthlutað vorið 2021 styrkjum til tækjakaupa eða námskeiðum fyrir kennara og verða að nýta styrkinn fyrir sumarfrí: Álftamýrarskóli, Borgaskóli, Djúpavogsskóli, Eskifjarðarskóla, Flóaskóli, Gerðaskóli, Glerárskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskóli Drangsness, Grunnskóli Hornafjarðar, Grunnskólinn á Þórshöfn, Heiðarskóli, Helgafellsskóli, Hvaleyrarskóli, Kerhólsskóli, Lindaskóli, Öldutúnsskóli, Réttarholtsskóli, Reykjahlíðarskóli, Rimaskóli, Setbergsskóli, Suðurhlíðarskóli, Víkurskóli í Reykjavík, Vopnafjarðarskóli og Þjórsárskóli. Til viðbótar var 50 borðtölvum frá hollvinum Forritara framtíðarinnar úthlutað og fengu Suðurhlíðarskóli, Grunnskóli Grundarfjarðar, Gerðaskóli og Fellaskóli því góða viðbót við sinn tækjabúnað og geta vonandi nýtt tölvurnar í kennslu og þannig undirbúið forritara framtíðarinnar.

Ný stjórn FF tók við á aðalfundi sjóðsins í lok september 2021 og er skipuð eftirfarandi einstaklingum sem eru spennt að undirbúa úthlutun vorsins en opnað verður fyrir umsóknir í kringum páskana:
Friðrik G. Guðjónsson, Landsbankinn
Linda Björg Stefánsdóttir, Reiknistofa bankanna
Birgitta Strange, Össur
Sigfríður Sigurðardóttir, CCP
Arnheiður Guðmundsdóttir, Skýrslutæknifélag Íslands

Úthlutun 2021

Í ár styrkir sjóðurinn 24 skóla um sem nemur tæpum 5 milljónir króna. Styrkir skiptast í tvo meginflokka, annars vegar er úthlutað um 1,3 milljónum króna vegna námskeiða sem kennarar geta sótt til að efla sig í forritunarkennslu og hins vegar er úthlutað um 3,5 milljónum króna til kaupa á smátækjum í forritunar- og tæknikennslu ásamt úthlutun á notuðum tölvubúnaði sem hollvinir FF gefa sjóðnum árlega.

Ljóst er að þörf skóla er mikil á þessu sviði því í ár var sótt um styrki sem í heild nema tæpum 25 milljónum króna og því ljóst að ekki var hægt að veita öllum styrk sem sóttu um. Þegar valið var úr umsóknum var horft til þess hvort skólar hafi sótt um og fengið styrk síðustu tvö skólaár og var sett þak á styrkina; að hámarki var hægt að fá 100 þúsund króna styrk til að sækja námskeið í forritunarkennslu og að hámarki var hægt að fá 150 þúsund króna styrk til tækjakaupa.

Við óskum þeim skólum sem fengu úthlutað í ár innilega til hamingju og vonandi nýtist styrkurinn vel.

Opið fyrir umsóknir 2021

Búið er að opna fyrir umsóknir hjá Forriturum framtíðarinnar fyrir árið 2021.

Eins og fyrri ár er hægt að sækja um námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu og yfirfarinn notaðan tölvubúnað. Einnig er hægt að sækja um styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu. 

HÆGT ER AÐ SÆKJA UM:

  • Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu
  • Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfistjórum  hollvina FF
  • Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu

Hægt er að sækja um styrk í einum eða fleiri af ofangreindum flokkum.

SKILYRÐI STYRKVEITINGA
Skólinn tilgreinir þá fjárupphæð sem hann telur sig þurfa í þeim flokkum sem sótt er um. Ekki er hægt að lofa því að skólinn fái styrk fyrir allri upphæðinni sem sótt er um.

UMSÓKNARFRESTUR ER TIL 15. MAÍ 2021

 

Ný stjórn tekur við

Aðalfundur Forritara framtíðarinnar fór fram 9. október síðastliðinn. Á fundinum var kosin ný stjórn sem skipt hefur með sér verkum.

Í stjórn forritara framtíðarinnar eru: Friðrik G. Guðnason, forstöðumaður Högunar hjá Landsbankanum (formaður stjórnar), Elsa M. Ágústsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptamála hjá RB (gjaldkeri), Sigfríður Sigurðardóttir, skrifstofustjóri hjá CCP (meðstjórnandi) og Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský (óháður).

Úr stjórn fer Bjarki Snær Bragason, deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri sem jafnframt var gjaldkeri. Stjórn þakkar honum vel unnin störf. Í stað hans kemur Baldur Knútsson, forstöðumaður hugbúnaðarþróunar hjá Össuri kemur nýr inn í stjórn (gjaldkeri.)

 

29 grunnskólar fá styrki sem nema 9 milljónum króna frá Forriturum framtíðarinnar

Forritarar framtíðarinnar hafa nú lokið úthlutun styrkja fyrir þetta ár og hlutu 29 grunnskólar styrki sem nema 9 milljónum króna. 1,5 milljón rann til námskeiða innan skólanna en 7,5 milljónir til kaupa á smærri tækjum í forritunar og tæknikennslu ásamt úthlutun á notuðum tölvubúnaði. Ljóst er að þörfin á stuðningi á þessu sviði er mikil en í ár var sótt um styrki sem í heild nema yfir 40 milljónum króna og ekki var hægt að veita öllum styrk sem sóttu um. Mestur áhugi var fyrir því að fá styrki til kaupa á minni tækjum en einnig er mikið sótt um styrki fyrir námskeið og notaðan tölvubúnað. Hægt var að sækja um í eftirfarandi flokkum:

  • Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu.
  • Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfisstjórum hollvina FF.
  • Styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu.
  • Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu (ekki tölvur).

Skólarnir sem fengu styrk í ár eru: Álftanesskóli, Bíldudalsskóli, Dalvíkurskóli, Egilsstaðaskóli, Flataskóli, Flúðaskóli, Foldaskóli, Giljaskóli, Grenivíkurskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Gunnskóli Grunarfjarðar, Grunnskólinn í Stykkishólmi, Háaleitisskóli, Hlíðaskóli, Höfðaskóli, Kársnesskóli, Landakotsskóli, Laugarnesskóli, Myllubakkaskóli, Norðlingaskóli, Njarðvíkurskóli, Sjálandsskóli, Skarðshlíðarskóli, Táknafjarðarskóli, Valsárskóli, Varmahlíðarskóli, Vesturbæjarskóli, Víkurskóli og Vogaskóli.

„Við stöndum frammi fyrir því að hér er skortur á fólki menntuðu í upplýsingatækni. Börn og unglingar verja miklum tíma í notkun tækni en brýnt er að þjálfa og mennta þau til að nýta sér tæknina í víðari skilningi – og spilar sjóðurinn þar mikilvægt hlutverk.  Háskólar landsins útskrifa tæknimenntað fólk sem annar um það bil 50% eftirspurnar atvinnulífsins og á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið. Á sama tíma er mikill skortur á tækni- og tölvukennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins,” segir Sigfríður Sigurðardóttir formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar.

Forritarar framtíðarinnar er sjóður sem stofnaður var 2014 með þann tilgang að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins í ár eru RB, Landsbankinn, CCP, Össur, Íslandsbanki og Webmo design. Vitað er að mikil þörf er á sjóðnum til að tengja saman viðskiptalífið, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila með það að leiðarljósi að sem flest ungmenni öðlist þá grunnhæfni sem til þarf til að verða forritarar framtíðarinnar.

Opið fyrir umsóknir 2020

Búið er að opna fyrir umsóknir hjá Forriturum framtíðarinnar fyrir árið 2020. 

Eins og fyrri ár er hægt að sækja um námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu og yfirfarinn notaðan tölvubúnað. Í ár verður einnig hægt er að sækja um styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu og styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu. Þessari nýjung sem var í boði í fyrsta sinn 2019  var tekið vel og allmargir sem fengu styrki þá. 

HÆGT ER AÐ SÆKJA UM:

  • Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu.
  • Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfistjórum  hollvina FF.
  • Styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu. 
  • Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu.

Hægt er að sækja um styrk í einum eða fleiri af ofangreindum flokkum.

SKILYRÐI STYRKVEITINGA
Skólinn tilgreinir þá fjárupphæð sem hann telur sig þurfa í þeim flokkum sem sótt er um.
Ekki er hægt að lofa því að skólinn fái styrk fyrir allri upphæðinni sem sótt er um.

  • Ef sótt er um styrk til námsefnisgerðar er skilyrði að námsefnið sé opið með Create Commons og sé skilað inn til Forritara Framtíðarinnar sem mun gera það aðgengilegt á heimasíðu sinni þannig að aðrir skólar geti nýtt efnið.
  • Ef sótt er um styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu þarf skólinn að tryggja að sótt sé námskeið í notkun tækjanna.
UMSÓKNARFRESTUR ER TIL 15. MAÍ 2020