Stefnumótun 2019

Stjórn Forritara framtíðarinnar fékk nokkra aðila með sér í stefnumótunarvinnu í mars til að skerpa á starfssviði sjóðsins. Eðalhópur sem kom með margar frábærar hugmyndir að því hvernig framlag sjóðsins geti styrkt sem best við það markmið að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Þökkum þeim sem tóku þátt kærlega fyrir þeirra framlag.

Þátttakendur í stefnumótun 2019

Búið að opna fyrir umsóknir hjá Forriturum framtíðarinnar 2019

Búið er að opna fyrir umsóknir hjá Forriturum framtíðarinnar fyrir árið 2019. Í fyrra fengu 30 skólar víðs vegar á landinu úthlutaðan fjárstyrk úr sjóðnum. Heildarúthlutun sjóðsins fyrir árið 2018 var 4.100.000 í formi fjárstyrkja og 4.550.000 í formi tölvubúnaðar.

Eins og fyrri ár er hægt að sækja um námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu og yfirfarinn tölvubúnað. Í ár verður einnig hægt er að sækja um styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu og styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu. Þetta er nýjung hjá sjóðnum sem við vonumst til að skólar sjái hag í.

HÆGT ER AÐ SÆKJA UM:

  • Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu.
  • Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfistjórum  hollvina FF.
  • Styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu. (NÝTT)
  • Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu. (NÝTT)

Hægt er að sækja um styrk í einum eða fleiri af ofangreindum flokkum.

SKILYRÐI STYRKVEITINGA
Skólinn tilgreinir þá fjárupphæð sem hann telur sig þurfa í þeim flokkum sem sótt er um. Ekki er hægt að lofa því að skólinn fái styrk fyrir allri upphæðinni sem sótt er um.

  • Ef sótt er um styrk til námsefnisgerðar er skilyrði að námsefnið sé opið með Create Commons og sé skilað inn til Forritara Framtíðarinnar sem mun gera það aðgengilegt á heimasíðu samtakanna þannig að aðrir skólar geti nýtt efnið.
  • Ef sótt er um styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu þarf skólinn að tryggja að sótt sé námskeið í notkun tækjanna.
UMSÓKNARFRESTUR ER TIL 30. APRÍL 2019

Aðalfundur Forritara framtíðarinnar fer fram 17. desember, 2018

Aðalfundur Forritara framtíðarinnar verður haldinn mánudaginn 17. desember kl. 11:00 og fer fram í húsnæði Landsbankans, Austurstræti 11, 101 Reykjavík.

Dagskrá aðalfundar fer fram samkvæmt 10. gr. skipulagsskrá.
(1) Stjórn félagsins skal skýra frá hag félagsins, rekstri þess og úthlutun styrkja á liðnu starfsári
(2) Ársreikningur þar síðasta árs lagður fram til samþykktar.
(3) Kosning stjórnar
(4) Kosning endurskoðenda
(5) Kosning um breytingar á skipulagsskrá
(6) Önnur mál

Tilnefningar til kosninga í stjórn og endurskoðunar félagsins þurfa að liggja fyrir hjá formanni stjórnar eigi síðar en fyrir upphaf aðalfundar.

Óski hollvinir að bera upp önnur mál á aðalfundi ber að senda þau til allra hollvina með að minnsta kosti 7 daga fyrirvara.

Vona að við sjáum fulltrúa allra hollvina á aðalfundinum og biðjum ykkur að tilkynnið þátttöku á aðalfundinn í netfang: sigfridur@ccpgames.com

F.h. stjórnar Forritara framtíðarinnar
Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður

30 skólar fengu úthlutað úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Fréttatilkynning  18. júní 2018:

Alls fengu 30 skólar víðs vegar á landinu úthlutaðan fjárstyrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Heildarúthlutun sjóðsins fyrir árið 2018 er 4.100.000 í formi fjárstyrkja og 4.550.000 í formi tölvubúnaðar. Styrkurinn skal nýttur í að þjálfa kennara til að búa betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur. Tilgangur sjóðsins er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins og frá stofnun hans árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir ríflega 40 milljónir króna.

Í ár fengu yfir 30 skólar  styrk frá sjóðnum. Skólanir skuldbinda sig með styrknum til  að hafa forritun sem hluta af námskrá skólans í að minnsta kosti tvö ár; Síðuskóli, grunnskóli Vestmannaeyja, Bláskógaskóli Laugarvatni, grunnskólinn á Eskifirði, Þelamerkurskóli, grunnskóli Grindavíkur, Sæmundarskóli, Lindaskóli, Dalvíkurskóli, grunnskóli Fjallabyggðar, Bláskógaskóli Reykholti, grunnskóli Borgarfjarðar eystra, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Vallaskóli, grunnskóli Grundarfjarðar, Vogaskóli, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, grunnskóli Drangsness, Hvolsskóli, Sjálandsskóli, Menntaskólinn að Laugarvatni, Álfhólsskóli, Skarðshlíðarskóli, Lágafellsskóli, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Gerðaskóli, grunnskóli Djúpavogs og Lundarskóli.

„Það er ánægjulegt að geta stutt við forritunarkennslu í skólum landsins á þennan hátt. Auk þess að stuðla að aukinni fræðslu þá er einnig markmið sjóðsins að auka áhuga barna og unglinga á forritun og tækni. Það er ljóst að það er mikilvægt í skólastarfi að efla forritunarkunnáttu skólabarna enda byggja þær tækniframfarir sem eru að eiga sér stað núna á stafrænum grunni sem tengir ýmsa tækni saman og mun hafa áhrif á fyritæki og samfélög til lengri tíma,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar.

Um Forritara framtíðarinnar

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Advania,  KOM,WebMo og Menntamálaráðuneytið. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir forstöðumaður markaðsmála hjá RB, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP sem er einnig formaður stjórnar.

 

Nánari upplýsingar veitir Sigfríður Sigurðardóttir, stjórnarformaður Forritara framtíðarinnar og skrifstofustjóri CCP, í síma 697-3691. Sjá einnig www.forritarar.is.

ÚTHLUTAÐ ÚR SJÓÐNUM FORRITARAR FRAMTÍÐARINNAR

Fréttatilkynning 8. janúar 2018.

Tíu skólar styrktir um 6,5 milljónir króna í úthlutun ársins 2017

Ákveðin hefur verið úthlutun fyrir árið 2017 úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar, en tilgangur hans er að efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Sjóðnum bárust 32 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Styrkir sjóðsins eru í formi tölvubúnaðar og fjárstyrks til þjálfunar kennara til að búa þá betur undir forritunarkennslu fyrir nemendur, samtals um sex og hálf milljón króna að virði.
Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli ellefu skóla, en þeir eru:

  • Kársnesskóli
  • Höfðaskóli
  • Varmahlíðarskóli
  • Grunnskóli Borgarfjarðar Eystri
  • Víkurskóli
  • Bíldudalsskóli
  • Vatnsendaskóli
  • Kópavogsskóli
  • Grunnskólinn í Hveragerði
  • Grunnskólinn í Þorlákshöfn

Frá stofnun sjóðsins árið 2014 hefur verið úthlutað til skóla landsins styrkjum fyrir hátt í 40 milljónir króna. Á árinu 2017 bættust við öflugir bakhjarlar Forritara framtíðarinnar en þeir eru fyrirtækin Marel og Advania.

„Það blandast engum hugur um mikilvægi tækni- og forritunarþekkingar í samfélagi nútímans. Við hjá sjóðnum erum afar stolt af því að geta stutt við skóla landsins í þessum efnum og þar með eflt þá í að leggja þann grunn sem þarf til að byggja á til framtíðar. Við finnum það að starfið skiptir skólana máli og fyrir auknum áhuga á forritunarkennslu í skólunum. Þjóðir sem best standa hvað tækni varðar búa við ákveðið forskot. Forritun eða innsýn í forritun er nokkuð sem nýtist ungmennum til framtíðar, ekki ósvipað og fólk býr að því að hafa fengið kennslu í erlendum tungumálum, landafræði og öðrum námsgreinum,“ segir Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar.

Frá afhendingu í Kársnesskóla. Á myndinni eru auk ónefndra barna í tölvuveri, Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar og meðstjórnandi í Forriturum framtíðarinnar, Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri og meðstjórnandi í Forriturum Framtíðarinnar, Björg Baldursdóttir skólastjóri Kársnesskóla í Kópavogi, og Vala Nönn Gautsdóttir og Jódís Ólafsdóttir tölvukennarar í Kársnesskóla. Myndina tók Anton Brink ljósmyndari.

Ný stjórn kosin

Á aðalfundi Forritara framtíðarinnar sem fram fór 22. desember síðast liðinn var kosin ný stjórn sjóðsins. Í stjórn sitja Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, Bjarki Snær Bragason deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri, Elsa Ágústsdóttir markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, Friðrik Guðjón Guðnason forstöðumaður hjá Landsbankanum og Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP og formaður stjórnar. Elsa og Friðrik koma ný í stjórn en Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri WebMo Design og Ragnhildur Geirsdóttir aðstoðarforstjóri Wow air gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu.

Um Forritara framtíðarinnar

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins eru Reiknistofa bankanna, Íslandsbanki, Landsbankinn, CCP, Icelandair, Össur, Cyan, KOM, Marel og Advania.

FORRITARAR FRAMTÍÐARINNAR FÁ STYRK FRÁ GOOGLE

Bjóða 224 íslenskum stelpum á aldrinum 8-13 ára á forritunarnámskeið.

Í tengslum við evrópsku forritunarvikuna Europe Code Week sem fram fer 15.–23. október næstkomandi hefur sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hlotið styrk frá Google til að kveikja áhuga á forritun hjá stelpum.

Forritarar framtíðarinnar munu í samstarfi við Google og Skema nota styrkinn til að bjóða stelpum á aldrinum 8 til 13 ára upp á 16 forritunarnámskeið helgina 22. til 23. október, þeim að kostnaðarlausu. Alls eru laus sæti fyrir 224 stelpur og verða námskeiðin í tveimur aldursflokkum, 8 til 10 ára og 11 til 13 ára. Um er að ræða grunnkennslu í forritun sem gefur góða innsýn inn í skapandi heim tækninnar og tekur hvert námskeið 1 klukkustund og 15 mínútur. Skráning fer fram á www.stelpurkoda.is.

Með þessu framtaki vilja Forritarar framtíðarinnar vekja áhuga hjá stelpum á forritun og að hún henti stelpum jafn vel og strákum. Í leiðinni er vakin athygli á almennum skorti á stelpum í tæknigeiranum en algengt er að í tæknigeira séu kynjahlutföll 75% karlar og 25% konur. Þetta er að sjálfsögðu breytilegt eftir fyrirtækjum og löndum en endurspeglar ágætlega skráða nemendur í tölvunarfræði við HÍ og HR í dag.

Í evrópsku forritunarvikunni (www.codeweek.eu) sameinast milljónir barna, foreldra, kennarar, frumkvöðla og stefnumarkandi aðila í Evrópu á viðburðum og námskeiðum gagngert til að læra forritun og auka tæknilega getu sína. Markmið vikunnar er að gera forritun sýnilegri, svipta hulunni af hæfileikunum og stefna áhugasömum saman í lærdóm helguðum tækninni.

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar var stofnaður árið 2014 með það að markmiði að efla forritunar- og tækni­menntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Frá stofnun hefur sjóðurinn nú úthlutað sem svarar 30 milljónum króna í styrki til grunn- og framhaldsskóla og þjálfað hátt í 300 kennara til að kenna forritun.

Hollvinir sjóðsins

Að sjóðnum standa fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. Þau leggja honum lið með fjármagni og tæknibúnaði. Hollvinir sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB (Reiknistofa bankanna), Skema, CCP, Cyan veflausnir, Össur, Icelandair, Síminn, Advania, KOM ráðgjöf, Samtök iðnaðarins og Mennta- og menningar­mála­ráðuneytið. Stofnaðilar sjóðsins eru RB og Skema.

NÝ STJÓRN FORRITARA FRAMTÍÐARINNAR

Á aðalfundi Forritara framtíðarinnar, sem fram fór fimmtudaginn 29. september síðastliðinn, var sjóðnum jafnframt kjörin ný stjórn.

Í stjórninni sitja áfram Guðmundur Tómas Axelsson, markaðs- og samskiptastjóri Reiknistofu bankanna (RB), Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans og Sigfríður Sigurðardóttir, skrifstofustjóri CCP. Inn í stjórnina koma ný Bjarki Snær Bragason, deildarstjóri hugbúnaðardeildar hjá Össuri og Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský, og koma í stað Katrínar Dóru Þorsteinsdóttur, forstöðumanns hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins og Sigríðar Olgeirsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.

ÚTHLUTUN 2016 – 12 MILLJÓNIR VEITTAR Í STYRKI TIL SKÓLA

Búið er að ákveða úthlutun fyrir árið 2016 úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar.

Sjóðnum bárust um 30 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Virði styrkjanna er samtals um tólf milljónir króna. Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur.

Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli fjórtán skóla: Vatnsendaskóla, Álfhólsskóla, Grunnskóla Vesturbyggðar, Tálknafjarðarskóla, Auðarskóla, Klébergsskóla, Oddeyrarskóla, Glerárskóla, Víðistaðaskóla, Hvaleyrarskóla, Blönduskóla, Grunnskóla Borgarfjarðar, Heiðarskóla og Ingunnarskóla.

Óskum við þessum skólum til hamingju og hvetjum um leið alla skóla til þess að sækja aftur um að ári 2017.

11 milljónir veittar í styrki til skóla

Forritarar framtíðarinnar efla tækni- og forritunarkennslu í grunn- og framhaldsskólum.

Þriðjudaginn 6. október verða styrkir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar afhentir fyrir árið 2015. Sjóðnum bárust alls 42 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Virði styrkjanna er samtals ríflega ellefu milljónir króna. Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur. Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli sextán skóla:

Egilsstaðaskóla, Grunnskóla Reyðarfjarðar, Hrafnagilsskóla, Glerárskóla, Brekkuskóla, Árskóla, Grunnskólans austan Vatna, Hólabrekkuskóla, Hlíðaskóla, Laugalækjaskóla, Árbæjarskóla, Vættaskóla, Rimaskóla, Hagaskóla, Foldaskóla og Grunnskóla Ísafjarðar.

Í skýrslu evrópska skólanetsins (European Schoolnet)* frá því í október 2014 kemur fram að forritun er í auknu mæli að verða lykilfærni sem allir skólakrakkar ættu að tileinka sér á einn eða annan hátt. Auk þess sem þessi færni er orðin mjög mikilvæg á vinnumarkaði í hinum ýmsu greinum. Forritun er þar skilgreind sem rökhugsun sem er orðin ein mikilvægasta færni tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að kennarar hafa almennt ekki verið nægilega vel undirbúnir fyrir að forritun sé sett á námskrá.

Í þessari úthlutun munu rúmlega 100 kennarar fá þjálfun til að kenna forritun og verða 75 tölvur afhentar. Þjálfun kennara skiptir miklu máli því þar styður sjóðurinn einna best við innviðina í skólunum þar sem hún ýtir undir áhuga á forritunar- og tæknimenntun innan skólanna auk þess að auka og byggja upp þekkingu. Þörf fyrir góðar tölvur er mikil í skólakerfinu en ekki er óalgengt að skólar landsins notist við 6-8 ára gamlar vélar í kennslu, jafnvel eldri, vélar sem segja má að séu orðnar úreldar.

Þess ber að geta að skólarnir sem fá styrk skuldbinda sig til þess að setja forritun á námsskrá í að minnsta kosti 2 ár. Þessi skuldbinding tryggir að jafnt stúlkur og drengir fái kennslu í forritun sem vonandi skilar sér til lengri tíma í fjölgun kvenna í tæknigeiranum.

Í skýrslu** sem unnin var af starfshópi á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtaka iðnaðarins kemur fram að Ísland stendur frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu fólki en samkvæmt henni útskrifast um 500 manns á ári af raungreina- og tæknisviðum Háskóla landsins á meðan þörfin er um 1.000 manns. Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar var að hluta til stofnaður til þess að mæta þessari þörf en hann hóf starfsemi sína í byrjun árs 2014. Megin hlutverk sjóðsins að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað, allt eftir þörfum hvers og eins. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Árið 2014 var úthlutað styrkjum að verðmæti átta milljónir króna. Samtals hefur því sjóðurinn úthlutað virði tæpra 20 milljóna króna í styrki til skóla árin 2014 og 2015.

Guðmundur Tómas Axelsson, stjórnarmaður í Forriturum framtíðarinnar:

„Við erum mjög ánægð með þær viðtökur sem sjóðurinn hefur fengið og þann fjölda umsókna sem hafa borist. Við erum stolt af því að hafa náð að úthluta styrkjum að verðmæti 20 milljóna á fyrstu tveimur starfsárum hans. Við höfum fengið til samstarfs við okkur góða hollvini, bæði einkafyrirtæki sem og Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samtök iðnaðarins sem sýnir okkur hvernig atvinnulífið og hið opinbera geta unnið saman á farsælan hátt. Starf sjóðsins skiptir skólana greinilega miklu máli. Styrkirnir hafa komið af stað snjóboltaáhrifum og má nefna að skóli á Vestfjörðum sem fékk úthlutað í fyrra og fór á fullt í að innleiða forritun í skólanum smitaði aðra skóla í nágrannabæjum sínum sem fóru líka af stað.“

Kjartan Kjartansson, skólastjóri Kirkjubæjarskóla sem fékk úthlutað úr sjóðnum 2014:

„Fyrir Kirkjubæjarskóla er þessi stuðningur ómetanlegur. Hann hjálpar okkur að vekja áhuga nemenda á forritun og þar með víkka sjóndeildarhring þeirra þegar kemur að tækni og þeim möguleikum sem forritun hefur upp á að bjóða.“

Soffía Vagnsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Grunnskólans í Bolungarvík og núverandi fræðslustjóri Akureyrarbæjar. Grunnskóli Bolungarvíkur fékk úthlutað 2014:

„Við erum afar þakklát fyrir styrkinn úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar sem Grunnskólinn í Bolungarvík fékk í febrúar. Við vildum í upphafi einbeita okkur að því að gefa kennurum innsýn í ævintýraheim forritunar. Áhuginn var mikill og námskeiðin frá Skema fyrir kennarana voru frábær. Að yfirfæra þá vitneskju yfir til nemenda er líka dýrmæt upplýsingagjöf. Margir nemendur ætla að verða tölvumenn/konur þegar þeir verða stórir. Við erum líka óendanlega þakklát fyrir þann tæknibúnað sem við fengum að gjöf og getum nú státað af frábærri aðstöðu hér í skólanum á sviði tölvubúnaðar. Við höfum haldið áfram kennslu á sviði forritunar og nú er búið að setja forritun formlega inn í tölvukennsluna hjá okkur. Áhugasamasti kennarinn er nú til dæmis í áframhaldandi námi í forritun.“

Anna María Þorkelsdóttir kennari og UT /náms- og kennsluráðgjafi í Hólabrekkuskóla sem er að fá styrk núna 2015:

„Við höfum í Hólabrekkuskóla reynt að innleiða nýja tækni og nýjar kennsluaðferðir miðað við þann búnað og þá þekkingu sem til staðar er. Á tækniöld er ljóst að skólar þurfa aðgang að tækjabúnaði sem hentar miðað við nýjar áherslur og þar sem að í ljós hefur komið að takmarkaður aðgangur að þeim tölvum sem fyrir eru í skólanum hefur hamlandi áhrif á þróunina, fögnum við því að fá þennan góða styrk. Við höfum fulla trú á að forritun sé nám til framtíðar og hlökkum til að geta gert alla kennara að færum forritunarkennurum og nemendum tækifæri til að verða að forriturum framtíðarinnar.“

Ásta Ásgeirsdóttir skólastjóri Grunnskóla Reyðarfjarðar sem er að fá styrk núna 2015:

„Þetta er sannkallað gleðiefni fyrir okkur í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Við hlökkum mikið til að takast á við þetta verkefni og nýta okkur þá tækni sem forritun býður upp á með fjölbreyttum hætti í kennslu ólíkra námsgreina. Teljum við að verkefnið leiði til nýsköpunar og hagnýtrar þekkingar og veiti nemendum tækifæri til að þróa búnað og forritun við hin ýmsu verkefni sem unnin eru í daglegu skólastarfi.“

Hollvinir sjóðsins

Að sjóðnum koma fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. Þau leggja honum lið með fjármagni og tæknibúnaði. Hollvinir sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB (Reiknistofa bankanna), CCP, Cyan veflausnir, Össur, Icelandair, Síminn, Advania, Samtök iðnaðarins og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Stofnaðilar sjóðsins eru RB og Skema.

*Könnun sem gerð er meðal 20 Evrópulanda í október 2014 (Sjá skýrsluna: http://www.eun.org/c/document_library/get_file?uuid=521cb928-6ec4-4a86-b522-9d8fd5cf60ce&groupId=43887)

**GERT skýrslan 2012, sjá: http://www.si.is/media/menntamal-og-fraedsla/GERT-Skyrsla-2012-nytt.pdf